Merki Félags kvikmyndagerðarmanna
*/?>
cameracrew.jpg

Fréttir

Opinn samstöðu- og aðgerðafundur á Hótel Borg

Vegna gífurlegs niðurskurðar í kvikmyndageiranum fram yfir aðrar listgreinar og vegna yfirlýsingar Páls Magnússonar um að ekki verði keypt íslenskt kvikmyndaefni í sjónvarpið er boðað til opins samstöðu- og aðgerðarfundar á Hótel Borg í kvöld 25. janúar kl.20:00.
Ráðamenn ríkisins og stjórnendur Ríkisútvarpsins virðast hafa ákveðið að leggja íslenska kvikmyndagerð í rúst.

35% niðurskurður framlaga til kvikmyndasjóða er skemmdarverk á greininni og nú kemur rothöggið frá Rúv; verulega verður dregið úr kaupum á kvikmyndaefni á innlendum markaði.

Með þessu sniðganga stjórnendur RÚV þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar sem og óskir eigenda sinna - og áhorfenda - sem vilja vandað íslenskt efni.

Niðurskurður er óhjákvæmilegur en sanngirni og jafnræði áttu að ráða för. Sexfalt hærri niðurskurður í kvikmyndagerð umfram aðrar listgreinar segir aðra sögu.

Ef það á að jarða íslenskan kvikmyndaiðnað er það stór menningarleg ákvörðun sem ekki er rétt að tekin sé í kyrrþey.
Við köllum eftir samstöðu allra þeirra sem bera hag íslenskrar menningar fyrir brjósti. Við þurfum að sporna gegn þessu eða sitja uppi með mikinn skaða.

Á fundinum á Borginni á mánudagskvöldið verður opinn hljóðnemi þar sem fólk getur tjáð sig um málið og lagt til leiðir til aðgerða. Við skorum á alla þá sem láta sig íslenska kvikmyndagerð og íslenska menningu varða, að mæta og senda frá sér skýr skilaboð.

Það er mikilvægt að bregðast strax við. Þessari þróun verður ekki snúið við nema við stöndum saman og verðum að kraftmiklu sýnilegu afli. Það er verið að gera aðför að íslenskri menningu til framtíðar og við það verður ekki unað.
Félag kvikmyndagerðamanna / The Icelandic Film Makers Association | Hverfisgata 54 | 101 Reykjavík | Iceland
Vefhönnun: Hugsa sér!
Merki Félags kvikmyndagerðarmanna