Merki Félags kvikmyndagerðarmanna
*/?>
fk4heim.jpg

NICK CAVE OPNAR REYKJAVÍK SHORTS&DOCS FESTIVAL 3-9 APRÍL


Reykjavík Shorts&Docs Festival verður haldin 12. sinn í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum daganna 3.-9. apríl næstkomandi.  Að venju er áherslan á innlendar og erlendar stutt- og heimildamyndir, en auk kvikmyndasýninga verða pallborðsumræður, vinnusmiðjur og fjöldi annarra viðburða á hátíðinni. Dagskrá 12. hátíðar Reykjavík Shorts&Docs í Bíó Paradís verður kynnt á næstu dögum. Hátíðin verður eins og áður segir í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum 3.-9. apríl nk.

20.000 Days on Earth - Heimildamynd um tónlistarmanninn Nick Cave opnunarmynd Reykjavík Shorts&Docs Festival

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna opnunarmynd Reykjavík Shorts&Docs Festival 2014 er heimildamyndin 20.000 Days on Earth um tónlistarmanninn og Íslandsvininn Nick Cave. Spenna, átök og kaldur raunveruleiki mætast í „uppspunnum“ 24 klukkutímum tónlistarmannsins og poppgoðsins Nicks Cave. Myndin gengur langt í nærgöngulli lýsingu sinni á átökum listamannsins við sjálfan sig og list sína og leitar svara við heimspekilegum spurningum um tilveru okkar um leið og hún skoðar mátt skapandi hugsunar.
Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda víða um heim og verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum. Leikstjórar myndarinnar eru Iain Forsyth & Jane Pollard. Myndin er opnunarmynd Reykjavík Shorts&Docs Festival og verður sýnd 3. apríl í Bíó Paradís og á meðan á hátíðinni stendur.
Í ár verða heimildamyndir um tónlist og listir í forgrunni á Reykjavík Shorts & Docs Festival en auk þess verða sýndar íslenskar stuttmyndir og heimildamyndir, og erlendar stuttmyndir. Áhorfendur munu velja bestu íslensku stuttmyndina eða bestu íslensku stuttu heimildamyndina og verða verðlaunin veitt sigurvegaranum á verðlaunaathöfn á lokakvöldi hátíðarinnar 9. apríl í Bíó Paradís.
Aðrar staðfesta heimildamyndir í ár eru m.a.:

* Finding Vivian Maier
Finding Vivian Maier er heimildarmynd sem hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Myndin fjallar um dularfulla barnfóstru sem í leyni tók yfir 100.000 ljósmyndir sem voru að endingu faldar í læstum hirslum í marga áratugi. Maier er í dag talin á meðal mikilvægustu ljósmyndara 20. aldar. Undarlegt en heillandi líf þessarar konu birtist áhorfandanum í gegnum áður óbirtar ljósmyndir, kvikmyndaupptökur og viðtöl við fjölda manns sem taldi sig þekkja hana.
Leikstjóri: John Maloof
Land: USA
Ár: 2013
www: http://www.findingvivianmaier.com/Finding_Vivian_Maier/Movie.html
Trailer: https://www.youtube.com/watch?v=2o2nBhQ67Zc

* My Prairie Home
My Prairie Home fjallar um söngvarann og listamanninn Rae Spoon sem fer með áhorfandanum í ferðalag sem er í senn skemmtilegt, andlegt og stundum melankólískt. Umhverfið eru víðáttur hinnar mikilfenglegu Kanadasléttu en í myndinni kynnumst við Spoon, tónlist þeirra og sjáum þau koma fram. Spoon er transmaður og heimildarmyndin gefur áhorfandanum sýn inn í ferlið sem því fylgir og lífsbaráttu Spoons sem transmanneskju og sem tónlistarmanns. My Prairie Home er tónlistarheimildarmynd í fullri lengd og leikstýrð og leikstjóri myndarinnar er Chelsie McMullan.
Leikstjórar: Chelsea McMullan
Land: Canada
Ár: 2014
www: http://www.raespoon.com/?page_id=955
Trailer: https://www.nfb.ca/film/my_prairie_home/trailer/my_prairie_home_trailer#temp-share-panel

* Inside Out: The People's Art Project
Þessi heillandi heimildarmynd fylgist með þróun stærsta „samvinnu-listverkefni“ heims þar sem fjölda fólks var boðið að gerast þáttakendur í verkefninu Inside Out. Franski listamaðurinn JR fór um hnöttinn og virkjaði einstaklinga til að útlista og tjá það sem skipti sig mestu máli - verkin eru sett fram af ástríðu, risastórar svarthvítar portrettljósmyndir límdar á veggi á götum úti í almannarými. Fylgst er með fólki á ýmsum aldri eigna sér veggi sem áður voru á bannsvæði og þar með reyna á eigin persónulegu þolmörk. Með því að festa atburðinn á filmu hefur Alastair Siddons skapað skýran vitnisburð um mátt listar til að umbreyta heilum samfélögum.
Leikstjóri: Alastair Siddons
Land: UK
Ár: 2013
www: http://www.insideoutproject.net/en
Trailer: https://vimeo.com/64033684

Nánari upplýsingar um sýningar Reykjavík Shorts & Docs Festival er að finna á heimasíðu hátíðarinnar http://www.shortsdocsfest.com. Miðar verða seldir í Bíó Paradís og á midi.is.

Sjáumst á Reykjavík Shorts&Docs Festival 3.-9. apríl!

ERT ÞÚ HEIMILDAMYNDAGERÐARMAÐUR/KONA?Hverjir skilgreina sig sem heimildamyndagerðarmenn? FK er að reyna að safna upplýsingum um starfandi heimildamyndagerðarmenn á Íslandi vinsamlegast sendið póst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ef að þið skilgreinið ykkur sem heimildamyndagerðarmenn.

FÉLAGSFUNDUR FK UM STOFNUN STÉTTARFÉLAGS

þriðjudaginn 4. mars kl. 18 í Gym & Tonic sal KEX

Þá er loksins komið að því að stíga skrefið til fulls og gera Félag kvikmyndagerðarmanna að fullgildu stéttarfélagi.

Fyrir nokkru sendum við með pósti drög að nýjum lögum FK sem liggja nú fyrir lögfræðingum félagsins til yfirferðar og samþykktar.

Við óskum eftir því að þú kynnir þér þessi nýju lög og mætir á félagsfund sem haldin verður að KEX Skúlagötu 28, og takir þátt í umræðu um þetta mál.
Lögfræðingar félagsins og RSÍ mæta til að svara spurningum félagsmanna.

Hringlaga box - Málþing í Iðnó 8. feb 2014

Málþing í Iðnó  8. febrúar 2014

Í tengslum við aðalfund sinn býður BÍL – Bandalag íslenskra listamanna,

til málþings í Iðnó laugardaginn 8. febrúar undir yfirskriftinni

HRINGLAGA BOX

- hlutverk listanna og þátttaka listamanna í innri endurskoðun og endursköpun samfélagsins - 

Málþingið tekur til skoðunar með hvaða hætti sköpun auðgar samfélagið, ekki einungis gegnum listræna túlkun og átök heldur ekki síður með skapandi og gagnrýnni nálgun við lausn hvers konar verkefna. Í nýjustu kenningum stjórnunarfræðanna er fjallað um mikilvægi skapandi nálgunar við lausn fjölbreytilegustu  viðfangsefna og bent á aðferðir listamanna sem eftirsóknarverðar í því sambandi. Þetta hefur leitt til þess að kallað er eftir kröftum listafólks í þverfaglegu samtali og samstarfi langt út fyrir lista- og menningargeirann;  a.m.k. þegar glímt er við heftandi ramma viðtekinna hefða. Listin leitast við að gera kosmos úr kaosi en í samtímanum virðast aðrar greinar menningarinnar, ekki síst fræðin, frekar njóta trausts til markvissrar endurskoðunar og endursköpunar samfélagsins. Nálgun listanna er ekki síður meðvituð, gagnrýnin, greinandi, spurul og speglandi, þótt hún sé vissulega dularfyllri og óræðari.

En hví ætti hlutverk og erindi listarinnar sjálfrar að virðast svo framandi hinni almennu orðræðu?

Hvað eru mýtur og hvað veruleiki um skapandi vinnubrögð?

Innleggin verða flutt af skapandi fólki sem hefur reynslu af því að takast á við fjölbreytt verkefni á vettvangi atvinnulífsins og vítt og breitt um samfélagið.  Sérstakur gestur málþingsins, Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur, mun fjalla um sína nálgun á verkefnið sem átt hefur hug hans sl. fjögur ár; að stofna stjórnmálaflokk, leiða hann til sigurs í kosningum til borgarstjórnar og stýra stjórnkerfi borgarinnar heilt kjörtímabil.

.

Innleggin flytja: Saga Garðarsdóttir leikkona, Kjartan Pierre Emilsson leikjahönnuður hjá CCP, Sólrún Sumarliðadóttir tónlistarmaður og  [enn ónefndur] fulltrúi Plain Vanilla

Málþingsstjóri verður Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt

Fyrirkomulag málþingsins verður þannig að innleggin verða kvikmynduð og sett á vefinn að málþinginu loknu, með það að markmiði að umræðan geti haldið áfram á vefmiðlum og samskiptasíðum.

Málþingið hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 15:45

Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins.

Málþingið er öllum opið.

Allar nánari upplýsingar gefa Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL  This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

og Hildigunnur Sverrisdóttir fagstjóri í arkitektúr við LHÍ This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.">This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

BÍL - Bandalag íslenskra listamanna, Pósthólf 637, 121 Reykjavík.  Sími 862 4808

LÖGBUNDINN HVÍLDARTÍMI

Félagi kvikmyndagerðarmanna barst kvörtun vegna samninga sem aðildarfélag í SÍK hefur látið kvikmyndagerðarmenn í lausamennsku skrifa undir þar sem þeir eru látnir gefa eftir lögbundinn 11 tíma hvíldartíma. Þó svo að málið sé flókið vegna þeirrar staðreyndar að flestir sem starfa í kvikmyndagerð reka sig sem verktaka er staðreyndin samt sú að þetta stennst ekki lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Við höfum beðið lögfræðing félagsins Halldór Bachmann hdl og samstarfsmanns hans Ágúst Karl Karlsson hdl um að skoða lagalega hlið málsins og eftirfarandi er hluti af þeirri greinargerð sem þeir sendu á okkur um málið.

„Lög nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku taka samkvæmt efni sínu einungis til launþega og ná því ekki til verktaka.

Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gilda hins vegar um alla starfsemi þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um ræðir eigendur fyrirtækja eða starfsmenn þeirra, þó með ákveðnum undantekningum. Tilgangur laganna er m.a. að tryggja öruggt og heilsusamlegt umhverfi á vinnustað.

Í IX. kafla laganna er mælt sérstaklega fyrir um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma en ákvæðum hans var breytt með lögum nr. 68/2003 sem fólu m.a. í sér innleiðingu á efni vinnutímatilskipunar Evrópuráðsins, sem felur í sér tiltekin lágmarksréttindi til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna skal haga vinnutíma þannig, að á hverjum 24 klukkustundum skuli starfsmenn fá a.m.k. 11 klukkustunda samfellda hvíld. Hins vegar er mælt fyrir um það í 52. gr. a. laganna að ákvæði kaflans, þ. á m. 1. mgr. 53. gr. laganna, gildir ekki um æðstu stjórnendur og þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir.

Af framangreindu tel ég leiða að ákvæði laganna um hvíldartíma eigi einungis við þegar um starfssamband launamanns og yfirboðara er að ræða og geti ekki átt við um verktaka, nema um annað sé sérstaklega samið.

Hins vegar er ljóst að lögin mæla fyrir um tilteknar meginreglur í vinnulöggjöf til verndar heilsu og öryggi starfsmanna sem hljóta almennt að eiga við hvort sem um launamenn eða verktaka er að ræða. Það mætti því mögulega vísa til þessara meginreglna við samningsgerð, enda ljóst að þrátt fyrir að kvikmyndagerðarmenn teljist til verktaka í þessu verkefni ráði þeir ekki framkvæmd vinnutíma sjálfir, heldur lúta boðvaldi annars aðila.“


Það er ljóst að sumir framleiðendur munu í krafti þess að þeir eru að semja við „verktaka“ halda áfram að seilast lengra og lengra í því að ganga á rétt fólks hvað varðar hvíldartíma, aðstöðu og hollustuhætti. Það er því deginum ljósara að mikilvægt er að ná heildarkjarasamning við SA - SÍK um kvikmyndagerð í landinu eins fljótt og mögulegt er. Það rímar vel við þá áætlun að FK gerist stéttarfélag kvikmyndagerðarmanna samkvæmt lögum og stefnt er á á næsta aðalfundi félagsins.

Við minnum á skjal sem að FK sendi frá sér á síðasta ári sem lýtur að því  að tryggja starfsfólki í kvikmyndagerð viðunnandi vinnuaðstæður og má nota til leiðbeiningar við gerð allra samninga. Til að skoða skjalið getur þú smellt HÉR

Félag kvikmyndagerðamanna / The Icelandic Film Makers Association | Hverfisgata 54 | 101 Reykjavík | Iceland
Vefhönnun: Hugsa sér!
Merki Félags kvikmyndagerðarmanna