fk4heim.jpg

Ágætu FK félagar fjölmennum í Bíó Paradís á morgun

Klukkan 15:00 mun Kvikmyndamiðstöð Íslands ásamt félögum í kvikmyndagerð kynna breytingar á styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs í kjölfar stóreflingar sjóðsins.

Klukkan 16 slást ráðherrar, blaðamenn og fleiri góðir gestir í hópinn og farið verður yfir stöðu greinarinnar og helstu breytinga sem vænta má í ljósi aukinna framlaga til Kvikmyndasjóðs.

Formenn fagfélaganna munu taka til máls og einnig verða nokkur verkefni sem eru í pípunum kynnt á fundinum. Eftir stutta dagskrá verður boðið upp á léttar veitingar.

AÐALFUNDUR FK

Aðalfundur Félags kvikmyndgerðarmanna var haldinn í Iðnó þann 24. janúar síðastliðinn. Hrafnhildur Gunnarsdóttir formaður félagsins kynnti skýrslu stjórnar og bar þar hæst umfjöllun um þá vinnu sem ynnt hefur verið af hendi í stéttarfélagsmálum sem og skýrslu um stefnumótunarvinnu um framtíð kvikmyndamenntunar á Íslandi sem menningar og menntamálaráðuneytið efndi til á síðasta ári og stjórn FK hefur komið að. Einnig var í skýrslunni greint frá auknum fjárlögum til kvikmyndasjóðs, rekstri Bíó Paradísar, framtíð Reykjavik Shorts and Doc hátíðarinnar og svo eitthvað sé nefnt. (Skýrsluna í heild má nálgast á vef félagsins filmmakers.is) Reikningar félagsins voru kynntir félagsmönnum og samþykktir af endurskoðendum.

 

 

Ein lagabreytingartillaga var lögð fyrir fundinn þar er um að ræða viðbót við lögin þ.e. nú bætist 11. grein við eða „Lög um heiðursfélaga“ og var hún einróma samþykkt. Heiðursfélagi Félags Kvikmyndagerðarmanna er annars vegar sæmdarheiti, sem hlotnast mönnum fyrir mikilsvert framlag þeirra til eflingar félaginu og/eða kvikmyndagerðarmönnum og konum sem eiga að baki farsælan starfsferil sem kvikmyndagerðarmenn. Hins vegar skulu allir þeir félagsmenn sem ná 67 ára aldri og hafa verið félagsmenn í FK í a.m.k. 5 ár þar af 3 ár af þeim 5 skuldlaust og verða sjálfkrafa heiðursfélagar þegar þeim áfanga er náð.

 

Þá var komið að kosningu stjórnar. Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Stefanía Thors gáfu báðar kost á sér áfram í embætti formanns og varaformanns. Ekki komu mótframboð og þær því sjálfkjörnar áfram. Aðrir stjórnarmenn sem starfa áfram eru Guðbergur Davíðsson,  Anna Þóra Steinþórsdóttir, Bergsteinn Björgúlfsson, Ósk Gunnlaugsdóttir og Anton Máni Svansson. Þau Guðmundur Erlingsson og Júlía Embla Katrínardóttir gáfu að þessu sinni ekki kost á sér til stjórnarsetu og ber að þakka þeim fyrir vel unnin störf. Í þeirra stað voru kosin Rebekka Ingimundardóttir og Fahad Falur Jabali. Þeir Hákon Már Oddson og Jón Karl Helgason voru áfram kjörnir edurskoðendur félagsins.

 

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum voru ýmis mál rædd. Meðal annars framtíðaráform í kjaramálum, lagabreytinganefnd, framtíð RIFF sem fengið hefur synjun um styrk frá Reykjavíkurborg, málefni KMÍ og margt fleira.

Steffí kynnti ennig fyrirhugaðan síðdegisfund á vegum KPMB um bókhald fyrir verktaka í kvikmyndagerð þann 31. janúar.  Að umræðum loknum var fundi slitið.

Nú fer hver að verða síðastur að komast á kjörskrá fyrir Edduverðlaunin 2013.

Kjörskránni verður lokað á miðnætti í kvöld, mánudaginn 28. janúar og aðeins þeir sem verða búnir að greiða aðildargjöld Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) fyrir þann tíma eru á kjörskrá og geta kosið í Eddunni 2013.

Tilkynnt verður um tilnefningar Eddunnar kl. 13, miðvikudaginn 30. janúar í Bíó Paradís. Allir Akademíumeðlimir og sérstaklega þeir sem sendu inn verk í Edduna eru hjartanlega velkomnir. Í kjölfarið fá svo þeir Akademíumeðlimir sem eru á kjörskránni senda rafræna kjörseðla og hafa til miðnættis 13. febrúar til að kjósa. Þeir sem eru ekki með netfang geta kosið á skrifstofu Kvikmyndamiðstöðvar, Hverfisgötu 54. Edduhátíðin sjálf verður svo haldin laugardaginn 16. febrúar og verður sjónvarpað beint og í opinni dagskrá á Stöð 2.
Enn og aftur: Aðeins þeir Akademíumeðlimir sem verða búnir að borga félagsgjöld Akademíunnar (ÍKSA) fyrir miðnætti í kvöld eru á kjörskránni og geta kosið á milli tilnefndra verka. Greiðsluseðlar fyrir félagsgjöldunum 2013 voru sendir í heimabanka Akademíumeðlima. Ekki láta eindaga greiðsluseðilsins rugla ykkur. Eindaginn er 10. september og þeir sem ekki verða búnir að greiða þá, detta út af félagaskránni og þurfa að sækja um aðild að nýju, kjósi þeir þess. Gjalddaginn er hins vegar 28. janúar og aðeins þeir sem eru búnir að greiða fyrir þann tíma, eru á kjörskrá Eddunnar 2013.
Athugið að þeir sem ekki greiddu aðildargjöld ÍKSA í fyrra eru dottnir út af aðildarskrá og þurfa að sækja um aðild að ÍKSA að nýju, óski þeir þess. Akademíumeðlimir sem eru 67 ára og eldri eða hafa fengið heiðursverðlaun ÍKSA þurfa ekki að greiða félagsgjöld og færast sjálfkrafa inn á kjörskrána.

Hér má sjá hverjir eru félagsmenn ÍKSA: http://eddan.is/?page_id=6

Hér má sjá hvaða félagsmenn eru búnir að greiða félagsgjöldin og komnir á kjörskrá: http://eddan.is/?page_id=697

Ert þú með fókusinn á það sem skiptir máli?

Síðdegisfundur 31. janúar

Vilt þú verja tíma þínum í listina og þau verkefni sem skipta þig máli í stað þess að liggja yfir bókhaldinu og gera upp?

Fimmtudaginn 31. janúar býður KPMG, í samstarfi við SÍK, FK og Film in Iceland, þér til fundar þar sem farið verður yfir fróðleiksmola er snúa að nýrri reglugerð varðandi endurgreiðslu, skattamálum og bókhaldi.

Við vonum að þú sjáir þér fært að mæta og ef þú veist um einhvern sem á erindi á fundinn bjóddu honum með.

Dagskrá:

Ný reglugerð um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi
Alexander G. Eðvardsson, KPMG

Skattskylda erlendra listamanna á Íslandi
Guðrún Ásta Sigurðardóttir, RSK

Er ég verktaki eða launþegi?
Bjarni Amby Lárusson, RSK

Þarf ég að færa bókhald?
Olgeir Jón Þórisson, KPMG

Boðið verður upp á léttar veitingar og er þátttaka án endurgjalds.

Dagsetning
31. janúar 2013

Staður
Skrifstofa KPMG
Borgartúni 27
8. hæð

Tími
Kl. 16:00 til 17:00
húsið opnað kl. 15:45

Málþing um varðveislu og skráningu gagna er tengjast Halldóri Laxness

Norræna húsið
31. janúar 2013 frá kl. 13.00 – 16.00

Gljúfrasteinn – hús skáldsins stendur fyrir málþinginu þar sem fjallað verður um varðveislu menningararfs Halldórs Laxness. Safnið á Gljúfrasteini hefur það hlutverk að varðveita, skrá og miðla því er tengist lífsstarfi Halldórs Laxness. En fyrir utan safneignina á Gljúfrasteini er til fjöldi bóka, ljósmynda, muna, skjala, kvikmynda, upplestra, heimildaþátta og viðtala sem varðveitt eru á ýmsum öðrum stöðum. Málþingið miðar að því að kortleggja varðveislu og skráningu þessara fjölbreyttu gagna til að auðvelda miðlun og efla möguleika á frekari rannsóknum í framtíðinni. Þó málþingið beini sjónum að varðveislu ævistarfs Halldórs Laxness þá gera aðstandendur sér vonir um að umræðan muni gagnast í stærra samhengi.

Handrit af Íslandsklukku Halldórs Laxness

Dagskrá:

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra setur þingið
„Sá veit gjörst hvar skórinn kreppir sem hefur hann á fætinum“

Fríða Björk Ingvarsdóttir, stjórnarformaður Gljúfrasteins reifar tildrög þingsins og ástæður þess að það er haldið. Tilefnið er varðveisla gagna sem tengjast arfleifð Halldórs Laxness á hinum ýmsu stöðum.
Varðveisla og miðlun“

Margrét Sigurgeirsdóttir safnastjóri RÚV og Hreinn Valdimarsson tæknimaður RÚV.
Fjallað verður um varðveislumál og miðlun sjónvarps- og útvarpsefnis með hliðsjón af arfleifð Halldórs Laxness. Reifaður verður sá vandi sem við er að etja, auk þess sem veitt verður innsýn inn í þau auðævi sem þarna finnast og þann raunveruleika sem RÚV býr við varðandi aðgengi og miðlun efnisins jafnt til rannsókna og almennings.
Hlé. Kaffi og meðlæti.


Framsöguerindi:

„Laxness í kvikmyndasafni“
Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, fjallar um kvikmyndir gerðar eftir verkum Halldórs og um myndir sem fjalla um hann. Einnig um hvernig staðið er að varðveislu kvikmynda og fyrirhugað átak í yfirfærslu þeirra yfir á stafrænt form.


„Samvinna er lykilatriði“
Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og fyrrverandi formaður safnaráðs fjallar um mikilvægi samvinnu þvert á stofnanir þegar kemur að varðveislu, skráningu og miðlun á menningararfinum.

„Laxness í Landsbókasafni – öryggi og miðlun“
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður ræðir um ástand og öryggi varðveislumála í Þjóðarbókhlöðu með hliðsjón af efni tengdu Halldóri Laxness, aðstöðu til rannsókna og þær kröfur sem þar eru gerðar vegna varðveisluþáttar og öryggis gagnanna. Einnig um aðferðir til að miðla gögnum og framtíðarsýn Landsbókasafns hvað það varðar.
Pallborð:
Í pallborði verða Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Ingibjörg Sverrisdóttir landsbókavörður, Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafn Íslands, Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri RÚV og Fríða Björk Ingvarsdóttir formaður stjórnar Gljúfrasteins.

Kolbrún Halldórsdóttir stýrir málþinginu og umræðum.

Málþingið er öllum opið.

Gljúfrasteinn - hús skáldsins
Laxness Museum
Pósthólf 250, 270 Mosfellsbær, +354 586 8066
This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.www.gljufrasteinn.is
Félag kvikmyndagerðamanna / The Icelandic Film Makers Association | Hverfisgata 54 | 101 Reykjavík | Iceland
Vefhönnun: Hugsa sér!