Hvað er handrit?

Handrit er þar sem flest kvikmyndagerðarverkefni eiga upphaf sitt. Hvað svo sem verkefnið er þá byrjar allt á handriti. Allavega í flestum tilvikum. Auðvitað byrjar allt á hugmynd en hugmynd ein og sér dugar ekki. Það þarf að vinna hana. Og til þess þurfum við handrit.
Þó að handrit að bíómyndum, stuttmyndum, heimildarmyndum, sjónvarpsþáttum og þar með talið raunveruleikaþáttum eru öll mismunandi, eiga öll þessi handrit sameiginlegar undirstöður. Þessar undirstöður breyta texta á blaði í handrit.

Handrit er listaverk / Handrit er tilfinningalaust verkfræðiskjal.

Eitt af því sem öll handrit eiga sameiginlegt er það að þau eru listaverk og eins og öll listaverk eru þau fær um að tjá tilfinningar til áhorfandans sem í þessu tilviki er lesandinn. Miðilinn sem handrit notar til að tjá þessar tilfinningar er saga. Á sama tíma er handrit ó-tilfinningalegur leiðbeiningarbæklingur um hvað á að taka upp. Og til þess að geta kallast gott handrit þá þarf að uppfylla bæði þessi skilyrði. Sagan ein og sér er ekki nóg til þess að búa til handrit því leiðbeiningarnar þurfa að vera á réttu tungumáli svo kvikmyndagerðarmennirnir (og konurnar) geti skilið þær og túlkað sögu handritsins yfir á sinn miðill.
Þessar leiðbeiningar eru í sama formi í öllum handritum og mikilvægar því þær eru alþjóðlegar. Einfaldasta leiðin til að læra þessar leiðbeiningar er einfaldlega að lesa nokkur handrit.(1) Svo er líka til mikið af fínum bókum (og vondum) um handritsskrif. Flestar fjalla hinsvegar mun meira um strúktúr.

Handrit er ekki gert til lesningar / Handrit þarf að vera gert til lesningar

Handrit eiga það sameiginlegt að þau eru lifandi kvikmynd. Þegar þú lest gott handrit þá áttu að geta séð fyrir þér hvernig endalegur afraksturinn lítur út. Frá byrjun til enda. Þó að lifandi efni veki sterkari tilfinningar þá ættirðu eftir lestur góðs handrits að fá allavega forsmekkinn af þessum tilfinningum. Hafa þær á blaði er hinsvegar ekki nóg. Þar eru handrit öðruvísi en til dæmis bækur. Handrit er ekki gert til lesningar, handrit er gert til upptöku.
En það er ekki nóg, því handrit þar líka að vera gert til lesningar. Sá sem les handritið þarf að geta skilið söguna, því fleiri þurfa ávallt að koma að verkefninu. Hvort sem það er framleiðandi, leikstjóri, myndatökumaður, leikmyndahönnuður eða bara einhver sem er til að setja fjármagn í handritið. Því þarf handritshöfundur ekki einungis að skrifa skjal til leiðbeiningar heldur einnig lesanlega sögu.

Handrit fylgir klassískum reglum sögu / Handrit fylgir sínum eigin sögu reglum

Tilgangur handrits er sá sami og tilgangur aðra miðla sem miðla sögu. Skila inn sögu sem áhorfandinn skilur og getur tengt sig við. Skiptir litlu hvaða miðill það er þá er verkefni höfundar ávalt það sama. Skila sögunni til áhorfenda. Og reglurnar á bakvið hvernig þú skilar þessari sögu hafa lítið breyst frá því fyrstu menn hófu að segja sögur. Þetta er allt það sama. Byrjun, miðja og endir. Þú hefur sögu á að kynna persónur sögunnar og heim þeirra, gefur þeim vandamál til að kljást við í gegnum miðju sögunnar og svo leysir vandamál þeirra undir lok. Þessar reglur er þær sömu í handritum, bókmenntum, leikritum og svo mætti lengi telja. Þessar reglur eru grundvöllur að góðu handriti.
En þessar reglur eru ekki nóg, því þó að handrit sé í grundvöllum með sömu leikreglur og hinir miðlarnir hafa handrit sínar eigin reglur þegar kemur að því hvernig á að segja sögu. Þessar reglur eru í grundvöllum þær sömu í öllum handritum, lýsa aðeins því sem þú getur séð, lengd handrits, hvar þú setur byrjun, miðju og endi, hvernig setur upp handrit til dæmis senulýsingar, hvernig font þú notar( Courier new 12 punkta) og svo mætti lengi telja. Svo er hægt að flækja málin enn frekar og bæta við sér strúktúr reglum fyrir gamanþætti, dramaþætti og raunveruleika þætti.

Hvað er ekki handrit?

Kannski hjálpar það líka að skýra hvað handrit sé með að lista skjöl sem eru ekki handrit en hafa í einhverjum tilfellum verið kölluð handrit. Þá er aðallega verið að tala um þrjár mismunandi tegundir af skjölum. Það eru eflaust til íslensk orð fyrir þessi skjöl, sem er eflaust líka góð og gild orð en ég kýs að nota ensku orðin því nýyrðin eiga til að flækja bara fyrir um hvað verið að tala, því margir hafa einfaldlega kosið að nota ensku orðin.
Synopsis: Það er ekki oft sem ég hef séð synopsis kallað handrit, en samt sem áður vert að ræða það. Synopsis er stutt lýsing á sögu, getur verið málsgrein í lengd eða ein til tvær blaðsíður. Synopsis lýsir sögu þinni á sem einfaldastan máta, byrjun, miðja og endir, aðalpersónu þinni og hvernig hún breytist í lokin. Oft er líka gott að minnist á þemu myndarinnar og hvernig er fjallað um hana.
Treatment: Ég hef oftar en einu sinni fengið í hendurnar það sem einhver kallar handrit en er í raun treatment. Treatment er skjal notað til að lýsa sögunni í meiri nákvæmni en Synopsis, getur farið frá 2-3 blaðsíðum upp í 20 bls. Oftast er best að miða við 10 bls sem hæfileg lengd. Treatment fer hratt yfir söguna sem þú ert að segja, en gefur lesandanum nógu mikið að til skilja hvernig handritið mun líta út.
Outline: Er það sem hef séð oftast verið ranglega kallað handrit. Og hugsanlega mætti kallast handrit þegar kemur að heimildarmyndagerð. Outline er mislangt skjal og fer algjörlega eftir því hversu margar senur eru í því handriti. Það er öðruvísi en handrit á þann hátt að skjalið lýsir bara senunum sem koma fyrir en er þær eru enn óskrifaðar. Stundum leynist með bútar af dialogue.

Handrit

Það væri hægt að rita heilu Masters ritgerðirnar af öllum reglum handrits, hvernig þau eiga að líta út, hvað á að gera, hvað á ekki að gera. Fyrir áhugasama er einnig líka hægt að lesa heilan haug af athyglisverðum bókum um málefnið og fá þannig tilfinningu fyrir því hvernig handrit virka. En besta leiðin til að fá tilfinninguna fyrir handritum og læra hvernig á að smíða eitt stykki er einfaldlega að lesa eins mikið af handritum sem þú getur komist yfir.
Og um leið og þú ert kominn með tilfinningu fyrir því, þá er auðvitað bara að setjast niður og skrifa. Eða eins og einn handritshöfundur sagði, þegar hann var spurður hvað væri besta heilræði sem hann gæti gefið öðrum handritshöfundi. „ Apply ass to seat and write. Then repeat as often as possible.“

(1) Það er til heill hellingur af handritum á netinu. En þegar þú sækir þér handrit á netið er vert að passa sig á að sækja ekki handrit sem eru kölluð transcripts. Ef handrit er merkt transcripts þýðir það að einhver ritaði það upp eftir bíómynd sem þýðir að það segir þér ekkert um hvernig handrit er skrifað og er absolutely fucking useless.

Góðir hlekkir fyrir handritshöfunda:

  • Ein besta leiðin til að læra er að lesa hvernig aðrir gerðu það. Ein besta resource síðan fyrir handrit á netinu. Inniheldur hinsvegar transscript handrit líka þannig gott að hafa varann á og vera viss um hvað þú ert að sækja. http://simplyscripts.com/
  • Lítil og einföld síða. Frábær staður til að finna sjaldgæf handrit af sjónvarpsþáttum. http://leethomson.myzen.co.uk/
  • Minni en simplyscripts en með smá ðruvísi úrvali. Fínn staður til að leita. http://www.imsdb.com/
  • Fínn staður til að finna allskyns keppnir og tækifæri til að koma sér áfram sem handritshöfundi. Mikil og erfið samkeppni en vel þess virði. Einnig er hægt að senda inn á BBC writers room hér, þeir taka og lesa allt, svo er líka hægt að finna viðtöl og greinar við fólk sem veit hvað það er að tala um. http://www.bbc.co.uk/writersroom/opportunity/index.shtml
  • Heimasíða höfundar bestu handritsbókar í dag að mínu mati. ” Save the cat”.  Vel þess virði að kíkja á fyrir handritsgerð fyrir leiknar- og heimildarmyndir, strúktúrlega séð. http://www.blakesnyder.com/
  • Fínt ókeypis handrits uppsetningarforrit. http://celtx.com/
  • Mest notaða handritsforritið í heiminum í dag.  Sérstaklega þægilegt viðmóts fyrir handritaskrif fyrir sjónvarp. Kostar sinn skilding samt. http://www.finaldraft.com/
  • Ágætis listi yfir handritskeppnir en alls ekki tæmandi. http://www.filmmakers.com/contests/directory.htm