Kæri félagi,

Hér koma nokktir punktar frá mér frá síðasta aðalfundi félagsins.

Ég hef allt frá því að ég tók við formennsku verið að setja mig æ meir inn í formannshlutverkið og að fóta mig á þeirri braut. Það hefur verið mjög áhugavert að kynnast menningarpólitíkinni í kringum kvikmyndagerðina, átökunum, baráttunni sigrunum og ósigrunum. Ég hef lagt áherslu á það sem formaður að gera FK sýnilegra út á við og sinna sómasamlega öllum samskiptum og boðum á opinbera viðburði fyrir utan öll þau störf sem stjórn FK og fulltrúar hennar sinna í hinum ýmsu nefndum. Einnig hefur verið lögð áhersla að að uppfæra vefinn okkar reglulega. Félagatal er komið upp á vefinn núna auk ýmissa annarra upplýsinga og vefurinn er ágætlega lifandi í dag. Við hófum samstarf við Nordisk Panorama á þessu ári og erum partur af nýjum Framleiðendaverðlaunum þeirra og erum jafnframt að sponsora þau verðlaun. Dómnefnd skipuð af FK valdi Heather Millard sem fulltrúa Íslands í ár. Ég tók við í Kvikmyndaráði af fráfarandi fulltrúa FK og byrjaði það strax með látum eða stórfelldum yfirvofandi niðurskurði í Kvikmyndasjóði og var mjög fumlaus og góð samvinna innan Kvikmyndaráðs sem leiddi það af sér að komist varð hjá stóru áfalli en Kvikmyndaráð er skipað fulltrúum helstu fagfélaganna í kvikmyndagerð. (Nú er svipað upp á teningnum virðist vera varðandi framlög til kvikmyndagerðar og bárátta í þeim efnum framundan.)

Á þarsíðasta aðalfundi var stigið stórt skref til baka frá því að FK væri bæði fagfélag og stéttarfélag til þess horfs að vera aðeins fagfélag, (eins og félagið var upphaflega). Var nokkur aðdragandi að þeirri breytingu sem má lesa um í eldri fundarskrám undir forystu annars formanns. Skráðir félagar þegar þetta er ritað eru 354 og greiddu 170 manns félagsgjöldin í félaginu og varð aukning á greiðandi félögum á milli ára.

Tilgangur félagsins og markmið er að stuðla að skapandi, listrænni og menningarlegri kvikmyndagerð og standa vörð um hagsmuni og höfundarrétt félagsmanna. Félagið eru heildarsamtök kvikmyndagerðarmanna og kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum, menningarstofnunum, öðrum félagasamtökum og erlendum aðilum.

Félag kvikmyndagerðarmanna hefur ekki verið með fast aðsetur nema í pósthólfi á síðustu árum. Forstöðumenn Kvikmyndamiðstöðvar Íslands hafa gefið vilyrði fyrir því að við getum fengið aðgang að húsnæði miðstöðvarinnar að Hverfisgötu 54 og er stefnt á að nýta það fyrir stjórnarfundi í framtíðinni.

FK á í ýmis konar formlegu og óformlegu samstarfi við önnur félög t.d. við SKL samtök kvikmyndaleikstjóra SÍK Samtök Íslenskra Kvikmyndaframleiðenda; FÍL Félag Íslenskra Leikara og FLH Félag Leikskálda og Handritahöfunda auk fleiri félaga og hefur það samstarf verið mjög gott og skemmtilegt þótt vissulega séu þessi félög að berjast fyrir misjöfnum hagsmunum og stundum tekist á. Það er mikilvægt að fulltrúar FK hafi alltaf hagsmuni Félags Kvikmyndagerðarmanna að leiðarljósi í öllum ákvörðunum á öllum sviðum starfseminnar.

Fulltrúi FK situr í Stockfish fyrir okkar hönd og síðasta Stockfishfestival var glæsileg hátíð. FK situr einnig í stjórn Heimilis kvikmyndanna og er reyndar einn af eigendum Bíó Paradís ásamt nokkrum öðrum fagfélögum. IKSA er í eigu fagfélaganna – sem heldur Eddu verðlaunin á ári hverju. FK hefur 2 fulltrúa þar í stjórn. Edda þessa árs tókst með glæsibrag. Töluverðar breytingar eru fyrirhugaðar á Eddunni og verður henni skipt í tvær hátíðir, það er mikil vinna og heilabrot sem því fylgir og mun FK reyna að gæta þess að kynna þær breytingar jafnóðum fyrir sínum félagsmönnum. Einnig hafa staðið yfir umræður og tillögur um breytingar á ÍKSA frá því að vera einkahlutafélag til félagasamtaka en þær umræður standa enn yfir. Að auki er rætt um að fjölga félögum og/eða félagasamtökum sem eigi aðild að ÍKSA. FK er aðili að BÍL Bandalagi íslenskra listamanna.

Fulltrúi FK er skipaður inn í kvikmyndaráð til 3 ára í senn. Kvikmyndaráð er stjórnvöldum til ráðgjafar um kvikmyndamál.

Listahátíð verður haldin næsta vor og situr fulltrúi FK í stjórn Listahátíðar í Reykjavík og er einn af stofnfélögum.

Undanfarið ár eða 18 mánuði réttara sagt hefur FK verið að aðlaga sig að breyttri hlutverkaskipan eða það er að segja breytingu frá þvi að vera fagfélag og stéttarfélag til þess að vera eingöngu fagfélag. Það hefur verið ærið verkefni að setja sig inn í og að sjá the „birds eye view“ eða heildarmyndina og í raun er það fyrst núna sem ég er að greina hismið frá kjarnanum á mörgum sviðum. Þess vegna langaði mig að leiða félagið áfram sem formaður því það tekur dágóðan tíma að setja sig inn í flókinn vettvang fagfélags. Ég þakka traustið sem mér var sýnt með endurkjöri til formanns. Verkefnin framundan eru að verða enn sýnilegri en síðasta ár og að efla enn frekar öll samskipti og styrkja stöðu FK á faglegum vettvangi enn frekar en mér hefur fundist vanta sýnileika félagsins á opinberum vettvangi.

Stjórn FK hefur að leiðarljósi að hún er málsvari og fulltrúi hins almenna félagsfólks og vinnur fyrir hagsmuni FK eingöngu.

Núverandi stjórn sem skipuð var á síðasta aðalfundi þann 9. September:

Steingrímur Dúi Másson-formaður
Arnar Þórisson-varaformaður
Sigríður Rósa Bjarnadóttir-gjaldkeri
Jóhannes Tryggvason-ritari
Sigurður Bahama Magnússon
Elva Sara Ingvadóttir
Hákon Már Oddsson

Fh Stjórnar Félags Kvikmyndagerðarmanna

Steingrímur Dúi Másson