Merkum áfanga var náð á aðalfundi Félags kvikmyndagerðarmanna – FK í vikunni þegar í gegn gengu ítarlegar lagabreytingar sem gerir félaginu kleyft að starfa sem stéttarfélag. Félag kvikmyndagerðarmanna er elsta starfandi félag kvikmyndagerðarmanna, stofnað 1966 en hefur aldrei stigið skrefið til fulls í að gerast stéttarfélag fyrr en nú. Samkvæmt nýju lögunum starfrækir félagið tvær deildir: fagfélagsdeild og stéttarfélagsdeild og stendur félögum til boða tvenns konar félagsaðild þar sem annars vegar getur fólk gerst aðili að stéttarfélagshluta félagsins og greitt hefðbundin stéttarfélagsgjöld eða sem aðili að fagfélaginu sem greiðir hefðbundið árgjald. Þannig er eldri gerð félagsaðildar viðhaldið og þeir sem ekki vilja gerast aðilar að stéttarfélaginu geta valið um að vera það ekki. Stór hluti starfandi kvikmyndagerðarmanna hefur þrýst á um þessar breytingar en aðstæður við kvikmyndagerð er mjög misjafnar hérlendis og sumir þeir samningar sem starfsfólk er látið skrifa undir innihalda ólögleg ákvæði samkvæmt almennum vinnuréttarlögum í landinu og Evrópu.

Á næstu vikum mun stjórn félagsins sækja um aðild að ASÍ og RSÍ til að styrkja stoðir sínar. Stefnt er að því næst þegar kjarasamningar eru lausir að gera heildarkjarasamning fyrir kvikmyndagerðarmenn í landinu ásamt öðrum þeim stéttarfélögum sem kvikmyndagerðarmenn eru hluti af. Vinnutilhögun og vinnuaðstæður er brýnt málefni að leysa þar sem að ekkert samkomulag er í gildi á milli framleiðanda og starfsfólks í kvikmyndagerð.  FK gaf út einhliða viðmiðunarskjal á síðasta ári fyrir samningagerð sinna félagsmanna.