NORDISK PANORAMA 2025

Skýrsla frá Steingrími Dúa

Nordisk Panorama er nýafstaðin en hátíðin er ein stærsta, ef ekki stærsta, heimilda- og stuttmyndahátíð á Norðurlöndum. Félag kvikmyndagerðarmanna var viðstatt opnunarhátíðina og fylgdist með þessari dásamlegu norrænu hátíð í nokkra fallega og heita haustdaga í Malmö. Við leyfum myndunum að tala hér en opnunarmyndir hátíðarinnar voru sýndar í Panora bio; finnska myndin The Helsinki Effect eftir Arthur Franck og stuttmyndin I am Everything eftir Jeppe Lange. Sú fyrrnefnda fjallar um sögulegan atburð í Helsinki á kaldastríðs-árunum og notar gríðarlegt magn af safnaefni frá safnadeild finnska ríkissjónvarpsins auk þess að leika sér aðeins með AI. Sú seinni, I am everything, var afar áhugaverð og fléttaði saman ljóðrænum texta eftir leikstjórann og gríðarlega öflugri AI vinnslu til að búa til sögu frá sjónarhorni gervigreindarinnar. Önnur mynd sem vakti athygli mína var Grænlenska myndin Walls-Akinni Inuk eftir leikstýrurnar Nina Paninnguaq og Sofie Rördam. Hin grænlenska Ruth hefur verið í fangelsi í um 12 ár og eins og föst á milli danska og grænlenska fangelsiskerfisins. Myndin fjallar á nærgætinn hátt um aðstæður fanga i Grænlandi og fylgist með Ruth sem er að reyna að fóta sig í lífinu innan veggja fangelsis og um leið að sækja um náðun. Í myndinni verður til einstakt samband á milli annars leikstjóra myndarinnar Ninu og Ruth og fallegt landslag Grænlands fléttast saman við kaldranalegt umhverfi fangelsanna. Ísland bar mikið úr býtum á þessari hátíð en íslenski framleiðandinn Hanna Björk Valsdóttir hlaut framleiðendaverðlaunin og Rúnar Rúnarsson vann verðlaun fyrir bestu stuttmyndina, Hringinn (O) með Ingvari Sigurðssyni í aðalhlutverki. Íslenska heimildamyndin Jörðin undir fótum okkar eftir Yrsu Rocu Fannberg var sýnd á hátíðinni en myndin fjallar um líf fólks á Grund, hversdagslega atburði og lífið með sinni gleði, fegurð og stundum sorg.  Besta heimildamyndin var valin Only on Earth eftir Robin Petré sem fjallar um óblíð náttúruöfl, hesta og kúreka í Galicia á Spáni. Takk fyrir okkur Nordisk Panorama.