FRÆÐSLA
FK hefur á stefnuskrá sinni að standa fyrir endurmenntun og námskeiðum fyrir félagsmenn og eru allar ábendingar vel þegnar. Einnig getum við aðstoðað með húsnæði fyrir námskeiðahald í samstarfi við Kvikmyndaklasann.
Ábendingar um námskeið og fyrirlestra má senda á info@fkvik.is.
KVIKMYNDAIÐNAÐURINN Á ÍSLANDI
Saga kvikmyndagerðar á Íslandi er um margt ólík kvikmyndasögu annara landa, meðal annars vegna hversu fáar kvikmyndir voru framleiddar mestan part 20. aldarinnar. Lengi vel var kvikmyndagerð hér á landi eins konar frumkvöðlastarfsemi sem var drifin áfram af ástríðu enda fjármagn til kvikmyndagerðar af skornum skammti. Kvikmyndagerð var nátengd öðrum listgreinum s.s. ljósmyndun, leiklist og Ríkissjónvarpinu sem tók til starfa 1966. Sama ár var Félag kvikmyndagerðarmanna stofnað. Markmið félagsins er að gæta hagsmuna kvikmyndagerðarmanna og stuðla að eflingu greinarinnar.
Fyrsta kvikmyndin sem var mynduð hér á landi var Berg-Ejvind och hans hustru (Leikstjóri Victor Sjöström, 1918). Fáar kvikmyndir voru framleiddar lengst framan af 20. öldinni eða einungis 18 myndir á árunum 1918-1979. Ákveðin kaflaskil urðu 1979 þegar Kvikmyndasjóður var stofnaður. Kvikmyndasjóður lagði grunninn að frekari kvikmyndagerð og sjálfstæðum iðnaði. Fyrstu kvikmyndirnar í fullri lengd sem framleidd voru með styrk úr sjóðnum voru Land og synir (Leikstjóri Ágúst Guðmundsson, 1980), Veiðiferðin (Leikstjóri. Andrés Indriðason, 1980) og Óðal feðranna (Leikstjóri Hrafn Gunnlaugsson, 1980). Jafnt og þétt jókst framleiðsla íslenskra kvikmynda í fullri lengd, heimildamynda, stuttmynda og sjónvarpsþátta eftir því sem leið á 20. öldina.
Kvikmyndamiðstöð Íslands var stofnuð árið 2003 og tók yfir starfsemi Kvikmyndasjóðs. Hlutverk KMÍ er að styðja við íslenska kvikmyndagerð og sjónvarpsverka með styrkjum, kynna íslenskar kvikmyndir á erlendum vettvangi og styðja við íslenska kvikmyndamenningu. Starfsemin og sjóðurinn heyrir undir menntamálaráðherra sem skipar forstöðumann til fimm ára í senn. Þá skipar ráðherra sjö fulltrúa í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann og varaformann án tilnefningar, en hina fimm fulltrúana samkvæmt tilnefningum Félags kvikmyndagerðarmanna, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Félags kvikmyndahúsaeigenda og Bandalags íslenskra listamanna.
Tökur á erlendum kvikmyndaverkefnum hér á landi hefur átt sinn þátt í að styrkja stoðir kvikmyndagerðar sem iðnaðar hérlendis. Bondmyndin A View to a Kill (Leikstj. John Glenn, 1985) var með fyrstu erlendu verkefnunum sem þjónustuð voru af íslenskum framleiðslufyrirtækjum, Lara Croft: Tomb Raider (Leikstj. Simon West, 2001) og Batman begins (Leikstj. Christopher Nolan, 2005) voru bæði stór verkefni og mannmörg. Flags of our fathers (Leikstj. Clint Eastwood, 2006) var tekin að hluta hér á landi 2005 og verkefnið var þjónustað af kvikmyndaframleiðslufyrirtækinu Truenorth. Tökur á Flags of our fathers voru gríðarlega umfangsmiklar og lögðu um margt grunninn að komu erlendra verkefna hingað til lands og sýndi fagmennsku og getu íslenskra kvikmyndagerðarmanna til að vinna og þjónusta stór erlend verkefni. Endurgreiðsla á framleiðslukostnaði í kvikmyndaframleiðslu skipti einnig sköpum fyrir komu erlendra verkefna hingað til lands en kerfið var tekið upp 2001. Hlutfall endurgreiðslu hefur hækkað jafnt og þétt frá upphafi, en í dag (2020) er endurgreiðslan 25% af framleiðslukostnaði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Íslenskt landslag hefur öllu jafna átt stóran sess í þeim erlendu verkefnum sem hafa verið kvikmynduð hér á landi og átt sinn þátt í að auka komu ferðamanna hingað til lands. Margir ferðamenn hafa til að mynda komið gagngert til landsins til að heimsækja tökustaði Game of Thornes sem eru ófáir og víða um landið.
Á síðustu árum hefur íslensk kvikmyndagerð dafnað og fjölmörg verk hafa vakið heimsathygli og unnið til verðlauna á fjölda kvikmyndahátíða. Það er af sem áður var, en nú eru framleiddar að meðaltali um 7-11 kvikmyndir í fullri lengd á hverju ári, 2-4 sjónvarpsþáttaseríur auka tuga heimildamynda og stuttmynda. Íslenska sjónvarps- og kvikmyndakademían, ÍKSA, veitir árlega Edduverðlaun fyrir kvikmyndir og sjónvarpsefni. Verðlaunin hafa verið veitt árlega síðan 1999. Þá sér Akademían einnig um val á framlagi Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna.
Á vefritinu Klapptré má finna góða samantekt um helstu staðreyndir og tölur um íslenska kvikmyndagerð, auk fleiri gagnlegra upplýsinga sem safnað var saman af ritstjóra miðilsins.