Stutta heimildamyndin Holding Hands for 74 years í leikstjórn Sigríðar Þóru Ásgeirsdóttur vann áhorfendaverðlaunin á Reykjavík Shorts&Docs Festival sem veitt voru í Bíó Paradís nú fyrr í kvöld.
Holding Hands for 74 Years er ástarsaga. Sagan hefst í Reykjavík 1939 þar sem við kynnumst Lúðvík og Arnbjörgu. Við kynnumst hvernig æskuást þeirra þroskaðist og dafnaði í 74 ár. Það er einstakt að eiga sama lífsförunaut svo lengi og fáir fá að verða þeirrar gæfu og ástar aðnjótandi.
Stuttmyndirnar Sker eftir Eyþór Jóvinsson varð í 2. sæti í áhorfendakosningunni og stuttmyndin Leitin af Livingstone eftir Veru Sölvadóttur varð í 3. sæti. Áhorfendaverðlaunin voru í boði Tónastöðvarinnar.
12. hátíð Reykjavík Shorts&Docs Festival er lokið og þótti hátíðin vel heppnuð. Opnunarmyndin, 20.000 Days on Earth, heimildamynd um tónlistarmanninn Nick Cave, fékk afbragðsdóma áhorfenda og bíógagnrýnenda í Harmageddon og Morgunblaðinu. Myndin verður tekin til sýninga í Bíó Paradís seinna á árinu svo að aðdáendur Nick Cave þurfa ekki að örvænta ef þeir misstu af sýningu myndarinnar á hátíðinni.