Reykjavík Shorts&Docs Festival verður haldin 12. sinn í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum daganna 3.-9. apríl næstkomandi. Að venju er áherslan á innlendar og erlendar stutt- og heimildamyndir, en auk kvikmyndasýninga verða pallborðsumræður, vinnusmiðjur og fjöldi annarra viðburða á hátíðinni. Dagskrá 12. hátíðar Reykjavík Shorts&Docs í Bíó Paradís verður kynnt á næstu dögum. Hátíðin verður eins og áður segir í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum 3.-9. apríl nk.
20.000 Days on Earth – Heimildamynd um tónlistarmanninn Nick Cave opnunarmynd Reykjavík Shorts&Docs Festival
Það er okkur sönn ánægja að tilkynna opnunarmynd Reykjavík Shorts&Docs Festival 2014 er heimildamyndin 20.000 Days on Earth um tónlistarmanninn og Íslandsvininn Nick Cave. Spenna, átök og kaldur raunveruleiki mætast í „uppspunnum“ 24 klukkutímum tónlistarmannsins og poppgoðsins Nicks Cave. Myndin gengur langt í nærgöngulli lýsingu sinni á átökum listamannsins við sjálfan sig og list sína og leitar svara við heimspekilegum spurningum um tilveru okkar um leið og hún skoðar mátt skapandi hugsunar.
Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda víða um heim og verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum. Leikstjórar myndarinnar eru Iain Forsyth & Jane Pollard. Myndin er opnunarmynd Reykjavík Shorts&Docs Festival og verður sýnd 3. apríl í Bíó Paradís og á meðan á hátíðinni stendur.
Í ár verða heimildamyndir um tónlist og listir í forgrunni á Reykjavík Shorts & Docs Festival en auk þess verða sýndar íslenskar stuttmyndir og heimildamyndir, og erlendar stuttmyndir. Áhorfendur munu velja bestu íslensku stuttmyndina eða bestu íslensku stuttu heimildamyndina og verða verðlaunin veitt sigurvegaranum á verðlaunaathöfn á lokakvöldi hátíðarinnar 9. apríl í Bíó Paradís.
Aðrar staðfesta heimildamyndir í ár eru m.a.:
* Finding Vivian Maier
Finding Vivian Maier er heimildarmynd sem hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Myndin fjallar um dularfulla barnfóstru sem í leyni tók yfir 100.000 ljósmyndir sem voru að endingu faldar í læstum hirslum í marga áratugi. Maier er í dag talin á meðal mikilvægustu ljósmyndara 20. aldar. Undarlegt en heillandi líf þessarar konu birtist áhorfandanum í gegnum áður óbirtar ljósmyndir, kvikmyndaupptökur og viðtöl við fjölda manns sem taldi sig þekkja hana.
Leikstjóri: John Maloof
Land: USA
Ár: 2013
www: http://www.findingvivianmaier.com/Finding_Vivian_Maier/Movie.html
Trailer: https://www.youtube.com/watch?v=2o2nBhQ67Zc
* My Prairie Home
My Prairie Home fjallar um söngvarann og listamanninn Rae Spoon sem fer með áhorfandanum í ferðalag sem er í senn skemmtilegt, andlegt og stundum melankólískt. Umhverfið eru víðáttur hinnar mikilfenglegu Kanadasléttu en í myndinni kynnumst við Spoon, tónlist þeirra og sjáum þau koma fram. Spoon er transmaður og heimildarmyndin gefur áhorfandanum sýn inn í ferlið sem því fylgir og lífsbaráttu Spoons sem transmanneskju og sem tónlistarmanns. My Prairie Home er tónlistarheimildarmynd í fullri lengd og leikstýrð og leikstjóri myndarinnar er Chelsie McMullan.
Leikstjórar: Chelsea McMullan
Land: Canada
Ár: 2014
www: http://www.raespoon.com/?page_id=955
Trailer: https://www.nfb.ca/film/my_prairie_home/trailer/my_prairie_home_trailer#temp-share-panel
* Inside Out: The People’s Art Project
Þessi heillandi heimildarmynd fylgist með þróun stærsta „samvinnu-listverkefni“ heims þar sem fjölda fólks var boðið að gerast þáttakendur í verkefninu Inside Out. Franski listamaðurinn JR fór um hnöttinn og virkjaði einstaklinga til að útlista og tjá það sem skipti sig mestu máli – verkin eru sett fram af ástríðu, risastórar svarthvítar portrettljósmyndir límdar á veggi á götum úti í almannarými. Fylgst er með fólki á ýmsum aldri eigna sér veggi sem áður voru á bannsvæði og þar með reyna á eigin persónulegu þolmörk. Með því að festa atburðinn á filmu hefur Alastair Siddons skapað skýran vitnisburð um mátt listar til að umbreyta heilum samfélögum.
Leikstjóri: Alastair Siddons
Land: UK
Ár: 2013
www: http://www.insideoutproject.net/en
Trailer: https://vimeo.com/64033684
Nánari upplýsingar um sýningar Reykjavík Shorts & Docs Festival er að finna á heimasíðu hátíðarinnar http://www.shortsdocsfest.com. Miðar verða seldir í Bíó Paradís og á midi.is.
Sjáumst á Reykjavík Shorts&Docs Festival 3.-9. apríl!