SAMÞYKKTIR FYRIR FÉLAG KVIKMYNDAGERÐARMANNA

 

1.gr. Heiti félags

Félagið heitir Félag kvikmyndagerðarmanna og er skammstafað FK. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Á ensku heitir félagið The Icelandic Film Makers Association.

 

2.gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins og markmið er að stuðla að skapandi, listrænni og menningarlegri kvikmyndagerð og standa vörð um hagsmuni og höfundarrétt félagsmanna. Félagið er heildarsamtök kvikmyndagerðarmanna og kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum, menningarstofnunum, öðrum félagasamtökum og erlendum aðilum.

 

3.gr. Félagsaðild

Félagar geta orðið þeir sem lokið hafa a.m.k. tveggja ára námi frá viðurkenndum kvikmynda- eða listaháskóla, eða hafa sinnt skapandi eða sérhæfðum faglegum störfum við kvikmyndagerð í minnst 12 mánuði. Aðild að félaginu er bundin við einstaklinga. Innan FK eru stafrækt sérstök faggildi en um þau er nánari kveðið í 8. gr. samþykkta þessara.

 

4.gr. Aðalfundur – félagsfundir

Æðsta stjórn félagsins er í höndum aðalfundar. Aðalfund skal halda einu sinni á ári, fyrir lok mars. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera þannig:

 1. skýrsla stjórnar 
 2. endurskoðaðir reikningar félagsins og gagnsæisskýrsla
 3. lagabreytingar
 4. kosning stjórnar
 5. kosning endurskoðenda
 6. önnur mál 

 

Almenna félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Stjórn, boðar félagsfundi eftir því sem tilefni gefast til. Skylt er stjórn að boða félagsfund berist skrifleg krafa um það frá 20 félagsmönnum, þar sem fundarefni skal tilgreint.

 

Formaður félagsins setur félagsfundi og stýrir þeim, nema hann tilnefni fundarstjóra. Á aðalfundi skal jafnan tilnefndur fundarstjóri, sem skal samþykktur af fundinum. Fundarstjóri skipar fundarritara.

 

Félagsfundi skal boða með rafrænni tilkynningu og á samskiptamiðlum eða með auglýsingu í fréttabréfi félagsins, með hæfilegum fyrirvara. Aðalfundi skal boða með sama hætti, með minnst 10 daga og mest 20 daga fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni í aðaldráttum.

 

Stjórnin getur ákveðið að félagsmenn geti tekið þátt í félagsfundi rafrænt, þ.m.t greitt atkvæði án þess að vera á fundarstað, að því gefnu að tryggt verði að mati félagsstjórnar að tiltækur sé nægjanlega öruggur búnaður til að félagsmenn geti tekið þátt í fundarstörfum með rafrænum hætti.

 

Á félagsfundi fer hver félagsmaður með eitt atkvæði. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á félagsfundi, nema mælt sé fyrir um annað í samþykktum þessum. Félaga er heimilt, ef sérstök forföll hamla fundarsetu hans, að gefa öðrum félaga skriflegt umboð til að fara með atkvæði sitt á félagsfundi. Skal umboði skilað til fundarstjóra í upphafi fundar, sem úrskurðar um gildi þess. 

 

5.gr. Lagabreytingar

Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn skriflega eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Aðalefni breytingartillagna skal koma fram í fundarboði til aðalfundar. 

 

Lagabreytingartillögur skal taka fyrir næst á eftir afgreiðslu á reikningum félagsins. Ná breytingartillögurnar samþykki skal farið að lögunum svo breyttum, við afgreiðslu annarra mála á dagskrá fundarins, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögunum.

 

Árgjald félagsins skal ákveðið á aðalfundi og þarf sama atkvæðamagn til breytinga á því og til breytinga á lögum félagsins.

 

6.gr. Kosning stjórnar

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og tveimur til vara, til eins árs í senn. Kosning stjórnar skal fara fram á aðalfundi. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega. Því næst skulu kosnir þrír stjórnarmenn í einu lagi og að lokum tveir til vara. Ef val er á milli framboða skulu kosningar vera skriflegar og leynilegar. Á aðalfundi skal kjósa tvo endurskoðendur úr röðum félagsmanna.

 

7.gr. Stjórn FK

Stjórn skal úr sínum hópi velja ritara og gjaldkera auk þess skal stjórn fela einhverjum stjórnarmanna, eða öðrum félagsmanni, ritstjórn fréttabréfs félagsins. Formaður skal boða stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir, en skylt er honum að boða fund ef þrír stjórnarmenn krefjast þess. Formaður stýrir fundum, en ritari skal halda gerðarbók yfir stjórnarfundi. 

 

Stjórn skal kjósa í ráð, nefndir og stjórnir sem félagið skipar fulltrúa í samkvæmt lögum, samningum og venjum. Falli atkvæði jafnt í stjórn skal atkvæði formanns ráða, en ella ræður meirihluti mættra stjórnarmanna afgreiðslu mála. Stjórnarfundur er lögmætur ef þrír stjórnarmenn eru mættir.

 

8.gr. Faggildi

Innan félagsins starfa níu gildi:

 • Brellutæknigildi
 • Framkvæmda- og framleiðslugildi
 • Gildi stjórnenda kvikmyndatöku 
 • Hljóðgildi
 • Hreyfimyndagildi
 • Klippigildi 
 • Kvikmyndastjóragildi  
 • Kvikmyndatökugildi 
 • Útlitsgildi

 

Hlutverk gildanna er að vera vettvangur fyrir sérhæfða fagumræðu og skoðanaskipti um hagsmuni einstakra faghópa, sem og kvikmyndagerðar í heild. Hvert faggildi setur sér faglegar kröfur og leitast við að starfa eftir alþjóðlegum stöðlum. Inntaka í gildi veitir meðlimum m.a. rétt til að nota nafn gildis í kreditlista.

 

9.gr. Heiðursfélagar

Stjórn FK skal útnefna heiðursfélaga í samræmi við sérstakar reglur sem stjórn setur um kjör heiðursfélaga og skulu reglurnar hljóta samþykkis aðalfundar. Val á heiðursfélaga skal kynnt og samþykkt á aðalfundi. Heiðursfélagi er undanþeginn félagsgjöldum.

 

10.gr. Tekjur og sjóðir
Tekjur FK eru vegna félagsgjalda, höfundatekna og annarra tilfallandi tekna. Tekjur skulu standa undir rekstri félagsins. FK annast umsýslu höfundatekna og annarra skyldra réttinda skv. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972. FK er heimilt að innheimta umsýslukostnað og draga hann frá réttindatekjum.

Stjórn FK útfærir úthlutunarreglur réttindagreiðslna sem skulu hljóta samþykki aðalfundar. Stjórn skal skipa þriggja manna úthlutunarnefnd sem samanstendur af gjaldkera FK, félaga og lögmanni (eða endurskoðanda). Umsýsla réttindagreiðslna og úthlutunarreglur taki mið af lögum nr. 88/2019 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar.

 

11.gr. Ýmislegt
Kvartanir og álitaefni skulu berast stjórn félagsins, þ.á.m. vegna umsýslu réttindagreiðslna. Skal staðfesta móttöku erinda og svara skriflega með rökstuðningi.

 

Ef félagi telst hafa brotið gagnvart tilgangi og hagsmunum félagsins er stjórn heimilt, eftir skriflega viðvörun til aðila, að víkja viðkomandi félagsmanni úr félaginu.

 

Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald undangengins árs nýtur hann hvorki kosningaréttar né kjörgengis í félaginu.

 

12.gr. Breytingar á samþykktum

Samþykktum þessum (áður lögum Félags kvikmyndagerðarmanna), verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni. 

 

Samþykktir þessar öðlast þegar gildi. 

 

Svo samþykkt á aukaaðalfund 8. júní 2022 (með samþykktum þessum falla þegar úr gildi eldri lög félagsins frá 2014 með síðari breytingum).