Kæru félagar Félags Kvikmyndagerðarmanna og kollegar, það var mér mikill heiður að taka við formannsembætti félagsins snemmsumars og ég lít á það sem ábyrgðarmikið, tímabundið hlutverk sem ég mun gera mitt allra besta til að sinna vel og af heilindum.
Við lifum á breytingartímum þar sem ör þróun er til staðar í kvikmyndum og fjölmiðlum og breytingarnar eru svo hraðar að stundum veit maður varla í hvorn fótinn maður á að stíga. Upptökutæknin og samþjöppun fyrirtækja skapar þrýsting á hinn almenna kvikmyndagerðarmann að vera í fleiri hlutverkum en áður tíðkaðist. Þetta veldur því að við erum mjög mörg í nokkrum hlutverkum, til dæmis sem framleiðandi einn daginn, tökumaður næsta dag og leikstjóri í vikunni þar á eftir o.s.frv. Félag kvikmyndagerðarmanna er eitt elsta fagfélag í kvikmyndagerð á Íslandi og hefur marga fjöruna sopið frá upphafi. Félagið er í dag skipað sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmönnum og tæknifólki. Ég tel styrk félagsins liggja í samsetningu félagsmanna þess, við erum einyrkjar, sjálfstæðir framleiðendur, tæknifólk og leikstjórar sem vinnum flókna vinnu sem krefst sjálfsaga og fagmennsku eins og hún gerist best – oft án þess að fólk utan geirans geri sér fulla grein fyrir þekkingunni og hinni miklu þjálfun að baki starfa okkar. Ég er stoltur af af því að tilheyra þessum hópi og tel mig heppin, jafnvel þótt launin séu ekki alltaf svimandi há og maður hugsi stundum af hverju í ósköpunum maður valdi þetta krefjandi svið. Þótt vinnugleðin sé líka laun í sjálfu sér og forréttindi að vinna skapandi störf þá hlýtur markmið okkar að vera að að fá eðlileg og mannsæmandi laun fyrir vinnu okkar. Ég vona að mér takist að styrkja þetta góða og gamla félag enn frekar í sessi með reynslu minni og þekkingu á meðan ég sinni formennsku þess. Ég mun leggja áherslu á að vera málsvari einyrkjans, sjálfstæða framleiðandans og tæknifólks í mínum samskiptum sem formaður FK, ég vil efla vinnuöryggi á tökustöðum, vernda hagsmuni tæknifólks og sjálfstæðra framleiðenda í kvikmyndum og í sjónvarpsiðnaði, berjast fyrir sanngjarnari launum, stuðla að meiri umhverfisvakningu og grænum lausnum í kvikmyndagerð, taka slaginn fyrir sjálfstæða framleiðendur og leikstjóra (einyrkja) við stóru kvikmyndafyrirtækin og tryggja það að við einyrkjar og sjálfstæðir framleiðendur sitjum alltaf við sama borð og stóru framleiðslufyrirtækin hjá ríkisvaldinu, RÚV, Kvikmyndamiðstöð Ísland og öðrum lykilstofnunum. Ennfremur vil ég leggja áherslu á aukna samvinnu kvikmyndagerðarmanna við aðra listamenn, því þótt orðin iðnaður og tækni komi stundum fyrir í sambandi við kvikmyndagerð, það er, kvikmyndaiðnaður, erum við langflest fyrst og fremst skapandi einstaklingar að vinna skapandi vinnu. Þess vegna er það mikilvægur áfangi að kvikmyndagerðarmenn geta nú í fyrsta sinn sótt um listamannalaun og ég vil þakka Bandalagi Íslenskra Listamanna og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við eð gera það að veruleika. Það mun einnig verða hlutverk mitt og nýrrar stjórnar að stefna að jöfnum kynjahlutföllum í stjórn FK, því miður er kynjahalli eins og er.
Að lokum vil ég segja að ég tel það vera mikilvægasta hlutverk stjórnar sem situr hverju sinni að hlusta á félagsmenn sína og að vera málsvari þeirra.
með kveðju
Steingrímur Dúi Másson