Stjórn FK ályktar eftirfarandi
Félag Kvikmyndagerðarmanna harmar ákvörðun íslenskra stjórnvalda að heimila tímabundnar hvalveiðar á nýjan leik. Langreyður er á válista yfir dýrategundir í útrýmingarhættu og er skyni gætt sjávarspendýr sem upplifir kvalir og þjáningar við núverandi veiðiaðferðir. Fjöldi fagfólks í Félagi Kvikmyndagerðarmanna hefur lifibrauð sitt af þjónustu við erlend kvikmyndafyrirtæki og er ljóst að hætta er á að sum verkefni á vegum erlendra kvikmyndafyrirtækja séu í uppnámi eftir ákvörðun matvælaráðherra. Þar sem hvalveiðar íslendinga virðast ekki þjóna heildarhagsmunum þjóðarinnar heldur þess í stað einkahagsmunum einnar fjölskyldu, eiganda Hvals HF, og þar sem afurðir virðast seljast seint og illa er erfitt að sjá nokkur haldbær rök sem réttlæta þessar veiðar í nútímanum. FK harmar að hvalveiðibann setji mögulega afkomu áhafna hvalveiðiskipa og fjölskyldna þeirra í uppnám og mælist til þess að yfirvöld bæti þessum fjölskyldum skert lífsviðurværi tímabundið í kjölfar hvalveiðibanns sem FK hvetur stjórnvöld til að setja á strax.
Virðingarfyllst, 
stjórn Félags Kvikmyndagerðarmanna