Kæra félagsfólk,
síðasta ár var viðburðaríkt í íslenskri kvikmyndagerð, þó nokkrar íslenskar kvikmyndir slógu í gegn á klakanum sem og á erlendri grundu, sjónvarpsfólk hafði ekki undan að færa þjóðinni fréttir frá Grindavík og Svartsengi og risar frá Hollywood tóku upp seríur eins og til dæmis the True Detective. Þetta var blómlegt ár í íslenskri sjónvarpsþáttagerð líka og það er ljóst að gæði íslenskrar framleiðslu eru yfirleitt af háu kaliberi.
Kannski þarf að fara fram meiri umræða um huglæga vinnu í skapandi greinunum. Almennt þykir huglæg vinna ekki mikilla peninga virði hérlendis. Jafnvel þótt flestir íslendingar beri mikla virðingu fyrir skapandi greinunum og skapandi einstaklingum. En það er eins og það standi í okkur þegar kemur að því að verðmeta huglæga vinnu eins og handritsgerð og höfundavinnu í peningum. Þess vegna reynist stundum erfitt að gefa sér tíma til að vinna þann verkhluta í heimildamyndum, kvikmyndum og sjónvarpsseríum. Vonandi munum við taka okkur á á þessu sviði í framtíðinni.
Nýlega breyttum við léni félagsins frá fkvik.is til filmmakers.is en það var mat stjórnar að filmmakers væri betra og meira upplýsandi lén og þar sem það var þegar í eigu FK var ákveðið að setja það í notkun. Svo vefur félagsins heitir núna www.filmmakers.is. Rafræn félagsskírteini eru komin í vinnslu og verða væntanlega tilbúin innan fárra vikna og munum við senda tilkynningu til félagsfólks þegar að því kemur og hvar hægt verður að nálgast sitt skírteini. Einnig höfum við nú opnað fyrir umsóknir í menningarsjóð FK og verður sérstakur póstur sendur um það í kjölfarið.
Ég óska okkur öllum góðs gengis nú á Þorranum og brátt kemur björt Góan með vorið sér við hlið.
Kær kveðja
Steingrímur Dúi
Formaður FK