Aðalfundur Félags kvikmyndagerðarmanna var haldinn Í júní 2024.  Sigríður Rósa stýrði fundi og kynnti svo fjárhagsreikninga félagsins. Að því loknu var kosið til stjórnar. Steingrímur Dúi bauð sig fram til áframhaldandi setu sem formaður, engin mótframboð bárust og var hann kjörinn formaður áfram. Ragnar Pétur bauð sig fram til lauss sætis varamanns og var hann kjörinn. Í stjórn tóku sæti:

Steingrímur Dúi Másson, formaður
Arnar Þórisson, varaformaður
Jóhannes Tryggvason, ritari
Sigríður Rósa Bjarnadóttir, gjaldkeri
Sigurður Bahama Magnússon
Elva Sara Ingvadóttir, varamaður
Ragnar Pétur Ragnarsson, varamaður

Sigríður Rósa lagði fram ársskýrslu þar sem fram kemur að fjárhagur félagsins er traustur og var skýrslan samþykkt. Hákon Már fulltrúi FK í IHM lagði fram gagnsæisskýrslu og lagði fram lagabreytingartillögu skv reglum ESB um gagnsæi sem var samþykkt. Elva Sara Ingvadóttir og Jón Karl Helgason voru kjörin endurskoðunarmenn reikninga.

Formáli

Árið 2023 og fyrri partur 2024 markaðist af uppgangi í erlendum kvikmyndaverkefnum eins og til dæmis sjónvarpsseríu Jodie Foster og HBO, True Detective-Night country. Einnig var það sérlega gott kvikmyndaár fyrir Ísland með myndum á borð við Á ferð með mömmu (Hilmar Oddsson) og Volaða landi (Hlynur Pálmason) ásamt fleiri frábærum kvikmynda og sjónvarpsverkefnum. Uppskeran var virkilega góð og vonandi er það vísir að framtíðinni en framlög til sjóða Kvikmyndamiðstöðvar Íslands skerðast því miður sífellt frá ári til árs og mikil barátta og orka fagfélaganna í kvikmyndagerð fer einmitt fram á því sviði.

Árið 2023-2024 var ekki beint ár mikilla afkasta í íslenskri sjónvarpsþáttagerð né heimildamyndum, þá er ekki verið að tala um gæði verkanna sem voru frumsýnd heldur um fjölda frumsýndra heimildamynda og sjónvarpsþátta síðustu misseri.
Endurgreiðslukerfið er mikil lyftistöng fyrir kvikmyndagerð á Íslandi. Spurningar hafa þó vaknað um kerfið og hvort að það sé á kostnað skapandi kvikmynda- og sjónvarpsvinnslu. Það er staðreynd að erlend framleiðsla hérlendis er gríðarlega mikilvæg fyrir stóran hóp félaga í FK og allt mjög gott um það að segja og endurgreiðslukerfið er styrkjandi fyrir innlendu kvikmyndaverkefnin líka en það er samt gagnrýnivert hversu lítið af íslenskri sköpunargáfu er notað til sköpunar í stóru erlendu verkefnunum, höfundavinna er nær eingöngu í höndum útlendinga. Kannski mætti ræða að setja aukinn þrýsting eða hvetjandi aðgerðir til að íslensk höfundavinna sé notuð í auknari mæli í þessum stóru erlendu verkefnum? Sigurjón Sighvatsson hefur nefnt í þessu samhengi að það þurfi að setja þak á endurgreiðslur til erlendra fyrirtækja og bendir reyndar einnig á að skattleggja þurfi streymisveiturnar til að reyna að koma jafnvægi á og styrkja íslenska fjölmiðla. Reyndar hefur það síðan gerst að nú er í vinnslu hjá Menningar- og viðskiptaráðherra ´Frumvarp til laga um menningarframlag streymisveitna til eflingu íslenskrar menningar og íslenskri tungu.´ Þau lög eiga skv ráðherra einnig að styrkja innlenda fjölmiðla. Sigurjón, sagði í viðtali í Morgunblaðinu að endurgreiðslukerfið væri nauðsynlegt íslenskri kvikmyndaframleiðslu og hann telur það halda uppi greininni en að jafnvægis sé þörf  á milli innlendrar og erlendrar kvikmyndaframleiðslu.

 

Aðeins um starfsemi FK

FK á sæti í kvikmyndaráði, BÍL, Listahátíð í Reykjavík, ÍKSA, Heimili kvikmyndanna Bíó Paradís), Stockfish og IHM. (Formaður FK situr einnig nú fyrir hönd kvikmyndagerðarmanna í Baklandi LHÍ).

Eins og áður sagði á FK aðild að Stockfish og er einn af stofn-eigendum hátíðarinnar ásamt fleiri fagfélögum. FK á einnig sæti í stjórn Heimilis kvikmyndanna sem rekur Bíó Paradís og er einn af stofn-eigendum kvikmyndahússins. Einnig eigum við fulltrúa í IHM og tvo stjórnarmenn í ÍKSA (Eddunni) en FK er eitt af stofnfélögum þess. Það eru breytingar fyrirhugaðar á ÍKSA og Eddunni, ljóst er að fleiri fagfélög kvikmyndageirans munu koma að málum og munum við upplýsa félagsmenn og stjórn FK um þau mál um leið og þau skýrast betur og samið hefur verið um ýmiss konar hagsmunatengd málefni og munum við standa vörð um hagsmuni FK sem endarnær og auðvitað um leið kvikmyndageirans í heild sinni.

Þau gleðilegu tíðindi gerðust að nú mega kvikmyndahöfundar sækja um listamannalaun. Félag kvikmyndagerðarmanna fagnaði frumvarpi ráðherra en gerði athugasemd og mættum við fyrir allsherjarnefnd Alþingis vegna málsins en FK telur æskilegt að fleiri fagfélög en einungis SKL og FLH skipi fulltrúa í úthlutunarnefnd og munum við fylgja þeirri kröfu eftir.

Við höfum lagt áherslu á að uppfæra vefinn okkar og að við séum sýnileg út á við. Félagatal er komið upp á vefinn núna auk ýmissa annarra upplýsinga og vefurinn er mjög lifandi í dag. Farið var í mikla vinnu við að fara í samstarf við fyrirtæki um afslætti fyrir okkar fólk og æðislega flott rafræn félagaskírteini eru komin í gagnið sem virka frábærlega vel. Það má sjá afslættina á heimasíðu okkar og einnig á bakhlið rafrænu félagsskírteinanna

Við hófum samstarf við Nordisk Panorama á síðasta ári og erum partur af nýjum framleiðendaverðlaunum þeirra og erum jafnframt að „sponsora“ þau verðlaun og dómnefnd FK valdi Heather Millard sem okkar framleiðanda sl ár og nú er dómnefnd að ljúka störfum við að tilnefna fulltrúa Íslands á þessu ári og verður það tilkynnt innan skamms þegar þetta er ritað.

Snemma á árinu 2024 var haldin ráðstefna um skapandi vinnu, gervigreind og höfundarétt að frumkvæði STEFS og kom FK að því málþingi. Málþingið bar heitið Tíminn líður hratt á gervigreindaröld og var mjög vel sótt í Hörpu. Það er ljóst að það þarf að huga að mörgu og að veröldin muni breytast hratt með tilkomu AI og standa þarf vörð um höfundarétt skapandi geirans og íslenskra höfunda.

Margt annað var gert  sl vetur, eins og samtal við menningarmálaráðherra vegna stöðu RUV á auglýsingamarkaði. FK sendi tilmæli til Fjölmiðlanefndar um að forðast að veikja stöðu RÚV sem er eitt af flaggskipum íslenskrar menningar. Minnt var á að að stofnunin sé mikilvægur vinnustaður fjölda kvikmyndagerðarmanna og dagskrárgerðarfólks og innan dyra þess væri mikilvægur menningarauður (cultural capital). Hvatt var til þess að farið yrði bil beggja og hæstvirtur ráðherra Lilja Dögg Alfreðsóttir hvött til að líta til reglna og tilmæla Evrópusambandsins hvað varðar ríkisfjölmiðla á auglýsingamarkaði og að meðalhófs yrði gætt.

FK fordæmdi morð Ísraelsmanna á almennum borgurum í Palestínu opinberlega og sendi bréf þess varðandi til utanríkisráðherra auk forsætisráðherra. Sama á við um hvalveiðar, FK fordæmdi þær og sendi bréf þess varðandi til ráðherra auk birtrar yfirlýsingar.

mynd eftir Maksim Romashkin

Almennt um fundi

Stjórnin fundaði um það bil 10 sinnum á starfsárinu. Enginn fastur fundarstaður er fyrir hendi.

Tilgangur félags og félagatal

Tilgangur félagsins og markmið er að stuðla að skapandi, listrænni og menningarlegri kvikmyndagerð og standa vörð um hagsmuni og höfundarrétt félagsmanna. Félagið eru heildarsamtök kvikmyndagerðarmanna og kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum, menningarstofnunum, öðrum félagasamtökum og erlendum aðilum.
Skráðir félagar þegar þetta er ritað eru 354.

Samstarf við önnur félög

FK á í ýmiss konar formlegu og óformlegu samstarfi við önnur félög t.d. við SKL samtök kvikmyndaleikstjóra SÍK, FÍL, BÍL og Félag handritahöfunda auk fleiri félaga og hefur það samstarf oftast verið farsælt þótt vissulega séu þessi félög stundum að berjast fyrir misjöfnum hagsmunum. Þess vegna er mikilvægt að fulltrúar FK hafi ávallt hagsmuni Félags kvikmyndagerðarmanna að leiðarljósi í öllum ákvörðunum á nefndarsviðum starfseminnar.

IKSA

Formlegt samstarf þessara aðila fer að mestu fram innan IKSA – Íslensku kvikmyndaakademíunnar sem meðal annars heldur Eddu verðlaunin á ári hverju. FK hefur 2 fulltrúa þar í stjórn.

BÍL

FK situr í stjórn BÍL.

Kvikmyndaráð

Fulltrúi FK og varamaður eru skipuð af Menningarmálaráðherra til 2 ára í senn. Ráðið er stjórnvöldum til ráðgjafar um kvikmyndamál og er umsagnaraðili um mörg mikilvæg mál.

Höfundasjóður FK, IHM

Úthlutað var úr höfundasjóði félagsins að venju. Höfundasjóður FK fær úthlutað frá IHM réttindagreiðslum fyrir félagsmenn sem eiga hlut í verkefnum sem hafa verið sýnd opinberlega sem þeir eiga höfundarétt til. FK á einn fulltrúa í fulltrúaráði IHM.

Listahátíð

Listahátíð var haldin í vor og situr fulltrúi FK í fulltrúaráði hátíðarinnar.

 

mynd eftir Lexy Wei

Samantekt

Árið 2023 og fyrri partur 2024 markaðist af uppgangi í erlendum kvikmyndaverkefnum, einnig var það sérlega gott kvikmyndaár fyrir íslenskar bíómyndir.  2023 var ekki beint ár mikilla afkasta í íslenskri sjónvarpsþáttagerð né heimildamyndum miðað við fjölda framleiddra mynda og þátta. Umræða er uppi varðandi endurgreiðslukerfið og er þörf á að jafnvægis verði gætt á milli íslenskrar og erlendrar framleiðslu í því sambandi. Einnig er umræða og aðgerðir hafnar í sambandi við erlendar streymisveitur og áhrif þeirra á afkomu fjölmiðla og íslenska menningu.
FK á sæti í kvikmyndaráði, BÍL, Listahátíð í Reykjavík, ÍKSA, Heimili kvikmyndanna Bíó Paradís), Stockfish og IHM. Félagið er líka einn af styrktaraðilum Nordisk Panorama.
Félagatal er komið upp á vefinn núna auk ýmissa annarra upplýsinga og vefurinn er mjög lifandi í dag. Farið var í mikla vinnu við að fara í samstarf við fyrirtæki um afslætti fyrir okkar fólk og æðislega flott rafræn félagaskírteini eru komin í gagnið. Mikilvæg umræða undanfarið misseri er skyndilegt hástökk gervigreindarinanr og er ein stærsta áskorun mannskyns gagnvart nýrri tækni frá upphafi.
FK fordæmdi morð Ísraels á almennum borgurum, mótmælti einnig hvalveiðum Hvals hf og tók þátt í samráðsgátt um ný listmannalaun til kvikmyndahöfunda. FK tók einnig þátt í samráði um RÚV á auglýsingamarkaði og sendi tilmæli til Fjölmiðlanefndar um að það mætti ekki veikja stöðu RÚV sem er eitt af flaggskipum íslenskrar menningar. Minnt var á að að stofnunin sé mikilvægur vinnustaður fjölda kvikmyndagerðarmanna og dagskrárgerðarfólks. Hvatt var til þess að farið yrði bil beggja og litið til reglna og tilmæla Evrópusambandsins hvað varðar ríkisfjölmiðla á auglýsingamarkaði.

Það er mikilvægt og brýnt að hlúa að grasrót félagsins og laða að nýtt félagsfólk. Höfum að leiðarljósi að við sem erum í stjórn sitjum þar í umboði félagsmanna og sem málsvarar þeirra og vinnum fyrir hagsmuni FK fyrst og fremst (og í þágu íslenskrar kvikmyndagerðar) í öllum störfum sem falla innan sviða félagsins.

F.h. Stjórnar Félags kvikmyndagerðarmanna
Steingrímur Dúi Másson
formaður FK